BRÁÐUM VERÐUR BYLTING!

SENDIRÁÐSTAKAN Í STOKKHÓLMI 20. APRÍL 1970

Árið 1970, í kjölfar mikilla efnahagsþrenginga eftir að Síldarævintýrinu lauk, voru mótmælaaðgerðir og pólitískt andóf fyrirferðarmikil í íslensku samfélagi.  Tveir atburðir stóðu upp úr: sendiráðstakan í Stokkhólmi í apríl og sprenging stíflu í Laxá í ágúst. Þarna voru á ferð róttækir námsmenn annars vegar og róttækir bændur hins vegar. Á sama tíma gripu konur til róttækari baráttuaðferða fyrir réttindum sínum og Rauðsokkahreyfingin var stofnuð.


Í myndinni er fjallað um baráttu íslenskra námsmanna á sjöunda áratugnum fyrir bættum kjörum og betra lífi. Námsmönnum hafði fjölgað mjög og stór hluti þeirra sótti framhaldsnám við erlenda skóla. Námslán voru af skornum skammti og voru eingöngu ætluð til að duga fyrir 35% af framfærsluþörf námsmannanna. Afganginn urðu þeir að sækja til foreldra og banka. En það áttu ekki allir efnaða foreldra eða höfðu aðgang að bankalánum. Baráttan fyrir betra lánakerfi var því jafnframt barátta fyrir jöfnuði til náms. Hagsmunabarátta námsmanna hafði verið einskorðuð við eigin hagsmuni, en með vaxandi róttækni æskufólks í heiminum teygði baráttan sig æ lengra yfir á önnur svið. Menn fóru að setja spurningarmerki við sjálfa þjóðfélagsgerðina og alþjóðamál urðu hluti af heimsmynd æskunnar á þessum tímum umróts og átaka.


Það var ekki síst stríðið í Víetnam og fjörbrot nýlendustefnunnar sem blésu í glæður mótmælanna. Vesturlönd urðu vettvangur baráttunnar sem var kennd við árið 1968. Fjöldi námsmanna taldi að það þyrfti að breyta samfélagsgerðinni og berjast gegn heimsvaldastefnu Vesturveldanna til þess að varanlegur árangur næðist í baráttunni fyrir bættum lífsgæðum.

Barátta íslenskra námsmanna tók á sig ýmsar myndir og náði hámarki í róttækustu aðgerð þeirra – sendiráðstökunni í Stokkhólmi þann 20. apríl 1970, þegar ellefu námsmenn fóru inn í íslenska sendiráðið og lýstu því yfir að sósíalísk bylting á Íslandi væri nauðsyn og drógu rauðan fána að húni.

Heimildamynd

Stjórn: Hjálmtýr Heiðdal/Sigurður Skúlason

Handrit: Anna Kristín Kristjánsdóttir / Hjálmtýr Heiðdal / Sigurður Skúlason

Tónlist: Hallur Ingólfsson

Klipping: Anna Þóra Steinþórsdóttir Klipp ehf

Hreyfimyndir: Una Lorenzen

Tæknibrellur: Jón Axel Egilsson

Græna gáttin

Hljóðvinnsla: Hallur Ingólfsson Klaki ehf

Litgreining og frágangur: Konráð Gylfason

Kamfilm

Framleiðandi: Hjálmtýr Heiðdal

Lengd: 72 mín.

Frumsýning: 2018


Kvikmyndamiðstöð Íslands styrkir verkefnið.

Ráðgjafi Martin Schlüter

Forstöðumaður Laufey Guðjónsdóttir







RÚV hefur keypt sýningarrétt og lagt til

kvikmyndir úr safni Sjónvarpsins.

Skarphéðinn Guðmundsson / Hera Ólafsdóttir.








Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ný stikla  hér