Í Jökuldalsheiði er að finna menjar um þá byggð sem hæst hefur staðið yfir sjó á Íslandi. Á 106 ára tímabili (1841-1946) var þar nokkurs konar nýlenda meira en 100 manna sem bjuggu á u.þ.b. 20 bæjum. Þegar heiðin hafði verið í byggð í tæpa þrjá áratugi dundu ósköpin yfir: Öskjugosið árið 1875.  Það sem áður hafði verið blómlegt beitiland var nú alþakið þykku vikurlagi sem engu eirði og eyðilagði að lokum lífsviðurværi fólksins í heiðinni.  Hún fór í eyði í nokkur ár en byggðist síðan aftur í mun minna mæli þó og að lokum flutti bóndinn á síðasta bænum, Sænautaseli, burt með fjölskyldu sína árið 1946. Fyrri hluti myndarinnar rekur sögu byggðarinnar frá upphafi til loka og fjallar um tengslin við skáldsöguna Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness.  Bjartur í Sumarhúsum sem heldur vildi vera sjálfstæður en að játast undir vald annarra manna á sér sterkar fyrirmyndir í þessum kotungum sem hófu búskap á heiðinni þegar landþrengslin á búsældarlegri stöðum voru orðin of mikil.


Í seinni hluta myndarinnar er aðalsögusviðið hálendið umhverfis Snæfell, Eyjabakkar, Vesturöræfi og hrikalegir farvegir Jökulsár á Brú og Jökulsár á Fljótsdal. Myndin er tekin 1998, áður en hið mikla rask af völdum virkjanasmíði hófst. Þar skiptast á víðáttumiklar heiðar og öræfi sundurskorin af hrikalegum árfarvegum þriggja stórfljóta. Fjallahringurinn er líka einstakur: Snæfell, Kverkfjöll, Herðubreið. Dýarlífið á heldur engann sinn líka: stórar heiðagæsanýlendur og hreindýrahjarðir.

Til skamms tíma þekktu fáir þetta svæði en nú orðin breyting þar á.  Bygging virkjana, risalón og stóraukin umferð ferðamanna og annarra hefur orðið til þess að orðstír þessa fyrrum stærsta ósnerta víðernis Evrópu hefur borist víða.

Framleiðslufyrirtæki: Víðsýn ehf


Höfundur: Steinþór Birgisson


Kvikmyndataka: Arnar Þór Þórisson


Klipping: Steinþór Birgisson


Tónlist: Steingrímur E. Guðmundsson,

Kristinn Árnason, Hans Jóhannsson


Lengd: 2 x 40 mínútur


© Víðsýn ehf.




Snjóvorið langa