SEYLAN KVIKMYNDAGERÐ
SEYLAN KVIKMYNDAGERÐ
Kvikmyndin um Svein Bergsveinsson segir sögu einstaklings, en leiðir okkur jafnframt í gegnum viðburðaríkt tímabil mannkynssögunnar. Sýn einstaklingsins á atburðina hjálpar nútímamönnum að skilja betur hvernig átök aldarinnar gátu stjórnað örlögum manna eins og Sveins. Sagan er sögð í gegnum reynslu Önnu Kristínar, frænku Sveins.
Fimm kassar með margvíslegum gögnum eru sendir til hennar frá A-Þýskalandi að honum látnum. Könnun á innihaldi kassanna opnar Önnu nýja sýn á ævi frænda síns og úr þeirri könnun sprettur þessi kvikmynd.
Við þáttaskil
(ljóð sem Sveinn samdi þegar hann flutti til A- Þýskalands 1952)
Ég er fæddur á þessari fold.
Ég er frjóangi úr þessari mold.
Allt sem ég er og ég verð
er íslenskt að stofni og gerð.
Menn lá mér, að land mitt ég flý,
að leita ég burtu á ný,
því hér sé mér hugljúfast allt:
helga þig landinu skalt.
En land mitt er fátækt um flest,
of fátækt að hýsa þann gest,
því vísindum vígður ég er,
en veglaus með þjóð minni fer.
Gleymdan að garði mig bar,
sem gesti mér tekið var.
Erindi gaum enginn gaf,
gríp ég því hatt minn og staf.
Heimildamynd um lífshlaup Sveins Bergsveinssonar 1907 - 1988
Sagan af lífshlaupi Sveins Bergsveinssonar er ofin úr mörgum þráðum, þar fléttast saman saga einstaklings, þjóðar- og fjölskyldusaga, stjórnmálasaga og saga um listræna tjáningu. Hin mörgu lög sögunnar eru tvinnuð saman í Sveini, upphaf ævi hans endurspeglar íslenskt þjóðfélag sem er enn á miðaldastigi. Lærdómsáhugi Sveins er ekki umborinn og hann talinn latur, hann verður að brjótast til mennta á eigin krafti. Skólaár hans á Akureyri mótast að hluta af hörðum stéttaátökum (hann verður vitni að Novuslagnum) á tímum kreppunnar miklu og hann tekur þátt í stofnun Kommúnistaflokks Íslands 1930 aðeins 23 ára gamall. Eftir nám í Háskóla Íslands heldur Sveinn út í heim til frekari landvinninga. Stórpólitískir atburðir krauma þá undir yfirborði evrópsks stjórnmálalífs. Sveinn lendir í hringiðu heimsstyrjaldar, hann er vitni að lífi þýsku þjóðarinnar á örlagatímum nasismans og hann upplýsir okkur um Íslendingana sem þar búa.
Kalda stríðið skellur á og eftir tilraunir til að hasla sér völl sem virtur fræðimaður í heimalandi sínu "grípur hann hatt sinn og staf" og kveður ættjörðina. Gamli sósíalistinn lifir sína starfsævi í Þýska alþýðulýðveldinu, á bak við múrinn - og þar dó hann skömmu áður en múrinn féll - en Sveinn átti þá ósk heitasta á sínu ævikvöldi að deyja heima á ættjörð sinni. Aska hans var send heim og var grafin í Fossvogskirkjugarði.
Hlustaðu á Svein lesa ljóðið
Við þáttaskil
Höfundur og stjórnandi:
Hjálmtýr Heiðdal.
Klipping:
Steinþór Birgisson og Elísabet Thoroddsen.
Framleiðandi: Hjálmtýr Heiðdal
Lengd: 55 mínútur.
Verkefnið er styrkt af
Kvikmyndamiðstöð Íslands,
ráðgjafi Sveinbjörn I Baldvinsson,
og MEDIA-áætlun ESB.
Frumsýnd 2010
Gríp ég því hatt minn og staf