SEYLAN KVIKMYNDAGERÐ
SEYLAN KVIKMYNDAGERÐ
Framleiðslufyrirtæki: Yrkja / Víðsýn ehf
Höfundur og stjórnandi: Birgir Sigurðsson
Kvikmyndataka: Arnar Þór Þórisson
Klipping: Steinþór Birgisson
Lengd: 3 x50 mínútur
© Yrkja / Víðsýn ehf.
Endurreisnin og almúginn
Uppf. 24.02.2016
Átjánda öldin er ein af merkustu öldum Íslandssögunnar. Hún er eins og viti, lýsir bæði fram og aftur í sögu þjóðarinnar og einnig til umheimsins því alþjóðlegir straumar höfðu þá djúptæk áhrif á framvindu mála á Íslandi.
Við sem nú lifum á Íslandi eigum erfitt með að hugsa okkur þjóðfélag án framfara. Framþróun er einkenni heilbrigðs samfélags en ef við skyggnumst aftur í tímann, til fyrstu ára 18. aldar, blasir við efnahagslegt hrun, algjör stöðnun í mannlífi og atvinnuvegum: Engin jarðrækt, engin garðrækt, hreysi þar sem áður voru blómleg býli, hungrað og klæðlítið fólk, illa haldnar skepnur, engin heilsugæsla, léleg dómgæsla, afdönkuð kvikfjárrækt, fiskveiðar í lamasessi. Í þessu samfélagi er viðvarandi atvinnuleysi, mikill fjöldi manna sem hvergi á kost á vistráðningu; förumenn og flakkarar og flestir þeirra á góðum vinnualdri. Og þjóðinni fjölgar ekki. Henni fækkar. Þetta er sjúkt samfélag.
Ekki er ofmælt að danskir kaupmenn hafi ráðið lögum og lofum í landinu á þessum tíma og þetta var án vafa hræðilegasta tímabilið í verslunarsögu landsins. Þar við bættust mikil harðindi, hafís allt í kringum landið, meira að segja inni á Faxaflóa.
Upplýsingin svonefnda( öðru nafni skynsemis- eða fræðslustefna) breiddist um Vestur-Evrópu um miðbik 18. aldar. Hún fól í sér óbilandi trú á framfarir og ótakmarkaða möguleika mannsins til þess að hafa áhrif á líf sitt og samfélag.
Á þessum tíma komust upplýsingarmenn til valda í Danmörku og það leiddi til margskonar endurreisnartilrauna hér á landi. Og Íslendingar eignuðust sjálfir sína eigin upplýsingarmenn sem voru ástríðufullir umbótasinnar og létu sér fátt mannlegt óviðkomandi: Skúli Magnússon, Jón Eiríksson, Magnús Stephensen, Stefán Thorarensen o. fl. Hér segir frá þeim og öllu því sem gerði það að verkum að síðari hluti 18. aldar varð einn merkasti umbrotatími í sögu þjóðarinnar.